Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 304/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 304/2020

Mánudaginn 24. ágúst 2020

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Björn Jóhannesson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. júní 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B frá 11. júní 2020 um að synja kæranda um aðgang að gögnum í barnaverndarmáli er varðar börn kæranda, C, og D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan C er X ára gömul og drengurinn D er X ára gamall. Foreldrar þeirra fara með sameiginlega forsjá þeirra. Kærandi er kynfaðir barnanna.

Með hinni kærðu ákvörðun hafnaði Barnavernd B að afhenda kæranda tiltekið gagn er varðar barnaverndarmál barna hans. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að starfsmaður barnaverndar hafi haldið eftir forsjárhæfnismati móður barnanna þar sem það sé ekki skýrt hvort kærandi eigi að fá aðgang að umræddu mati með tilliti til þeirra upplýsinga sem það hafi að geyma um barnsmóður kæranda. Auk þessa er í ákvörðun Barnaverndar B bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 16. júní 2020. Með bréfi, dags. 19. júní 2020, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar B ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndar barst með bréfi, dags. 8. júlí 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var hún send kæranda til kynningar og honum veittur frestur til að gera athugasemdir. Athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því vegna mála barna hans hjá Barnavernd B, sem hafi verið í gangi frá því í september 2019, hafi hann óskað eftir að fá öll gögn afhent er varði börnin. Lögfræðingur Barnaverndar B hafi sent kæranda þau gögn sem hún hafi tekið til en ekki látið fylgja forsjárhæfnismat sem barnsmóðir kæranda hafi gengist undir. Lögfræðingurinn hafi skrifað bréf þess efnis að hún hafi ekki látið forsjárhæfnismatið fylgja vegna persónuverndarlaga. Hún hafi þó bent kæranda á að hann gæti kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Kærandi telur það mjög mikilvægt að hann fái þessi gögn í sínar hendur til þess að geta tryggt öryggi og velferð barnanna sinna. Kærandi telji börnin ekki örugg í umsjá móður og hann vilji tryggja að börnin fái eðlilegt og gott líf. Kærandi sækist eftir að fá lögheimili og forsjá barnanna. Þau hafi verið vistuð hjá kæranda síðan í september 2019. Þar sem börnin eigi lögheimili hjá móður sé flækjan mikil. Kærandi geti ekki með nokkru móti skráð börnin í dagvistun, tómstundir, nýtt frístundastyrk eða pantað tíma hjá lækni. Þá séu börnin hvorki í leikskóla né skóla við heimili hans heldur við fyrra heimili þeirra hjá móður.

Í ljósi aðstæðna telji kærandi mikilvægt að hann fái þessi gögn í hendur. Hans áhersla sé að tryggja öryggi og velferð barnanna.

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð barnaverndar kemur fram að í maí 2019 hafi afskipti Barnaverndar B af heimili móður byrjað. Neyðarráðstöfun hafi verið beitt þann 19. september 2019 og börnin fjarlægð af heimili móður. Börnin hafi verið vistuð hjá kæranda á grundvelli barnaverndarlaga með samþykki móður í 12 mánuði, þ.e. frá 1. maí 2020 til 1. maí 2021.

Móðir hafi undirgengist forsjárhæfnismat og niðurstaða þess legið fyrir 28. apríl 2020. Þar sem móðir hafi samþykkt vistun barnanna 1. maí síðastliðinn til 12 mánaða hafi ekki komið til þess að matið yrði lagt til grundvallar ákvörðun barnaverndarnefndar um framhald vistunar utan heimilis. Kæranda hafi því verið synjað um afhendingu forsjárhæfnismats móður með vísan til 45. gr. bvl. þar sem fram komi að afhenda beri aðilum öll þau gögn sem mál þess varði og komi til álita við úrlausn þess, enda tryggi þeir trúnað. Reglan byggi á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns. Þessi sjónarmið eigi ekki við hér þar sem samkomulag hafi náðst við móður um að börnin skuli vistuð áfram hjá kæranda.

Í 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að þegar sérstaklega standi á sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þyki eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Sams konar ákvæði sé að finna í 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Hér þurfi því að taka afstöðu til þess hvort kærandi hafi ríkari hagsmuni af því að fá umrætt forsjárhæfnimat afhent en barnsmóðir hans af því að viðkvæmar persónulegar upplýsingar, svo sem niðurstöður sálfræðilegra prófana, verði ekki afhentar kæranda. Niðurstaðan hafi verið sú að svo væri ekki með vísan til þess að ekki hafi komið til þess að ákvörðun væri byggð á niðurstöðu forsjárhæfnismatsins og að um viðkvæmar upplýsingar væri að ræða um einkamálefni og heilsufar konunnar sem óheimilt væri að afhenda öðrum. Þá verði að líta til þess að það hafi meðal annars að geyma upplýsingar um dóttur konunnar, barn sem lúti ekki forsjá kæranda.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar beiðni kæranda um aðgang að forsjárhæfnismati sem barnsmóðir kæranda gekkst undir vegna barnaverndarmáls sem varðar börn kæranda, C og D.

Barnavernd B synjaði beiðni kæranda þann 11. júní 2020. Byggði barnaverndin meðal annars á því að ekki hafi verið byggt á forsjárhæfnismatinu við ákvörðun Barnaverndarnefndar B um framhald vistunar barnanna utan heimilis. Með tilliti til þess svo og með hliðsjón af þeim upplýsingum sem forsjárhæfnismatið hafi að geyma um barnsmóður kæranda, hafi þótt rétt að synja kæranda um aðgang að skjalinu. Vísað er til þess í greinargerð barnaverndar að synjun á afhendingu skjalsins hafi grundvallast á 45. gr. bvl. Sú regla sem þar komi fram byggi á því sjónarmiði að almennur aðgangur að upplýsingum og umráð skjala sé nauðsynlegur liður í því að aðili geti gætt andmælaréttar síns. Þessi sjónarmið eigi ekki við í máli kæranda þar sem samkomulag hafi náðst við móður um að börnin væru vistuð áfram hjá kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. getur barnaverndarnefnd með rökstuddum úrskurði takmarkað aðgang aðila að tilteknum gögnum barnaverndarmáls ef hún telur að það geti skaðað hagsmuni barns og samband þess við foreldra eða aðra.

Í máli þessu liggur fyrir að Barnavernd B tók ákvörðun í málinu sem var tilkynnt kæranda með tölvupósti þann 11. júní 2020. Tölvupósturinn ber ekki með sér að barnaverndarnefnd hafi fjallað um beiðni kæranda á fundi. Að áliti úrskurðarnefndar hefur Barnaverndarnefnd B því ekki kveðið upp rökstuddan úrskurð um þá kröfu kæranda sem til úrlausnar er í málinu eins og áskilið er í skýru ákvæði 2. mgr. 45. gr. bvl. og liggur því fyrir að hin kærða ákvörðun var ekki tekin með þeim hætti sem bvl. gera kröfu um.

Að þessu gættu er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B frá 11. júní 2020 um að synja kröfu kæranda, A, um afhendingu gagna í barnaverndarmáli er varðar börn hans, er felld úr gildi og vísað til löglegrar málsmeðferðar og ákvörðunar að nýju.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum